Írskir vetrardagar verða haldnir á Akranesi dagana 17. til 20. mars. Það var menningar- og safnanefnd Akraneskaupstaðar sem samþykkti á liðnu ári að undirbúa nýjung í menningarlífi bæjarins og halda Írska vetrardaga. „Markmiðið er að tengjast Írlandi enn frekar, meðal annars í gegnum bókmenntir og tónlist. Fimmtudagurinn 17. mars, dagur heilags Patreks eða St. Patrick‘s day, verður því grænn dagur á Akranesi. Bæjarbúar og fyrirtæki eru sérstaklega hvött til að skarta grænum lit þann dag. María Neves, nemandi í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum, mun aðstoða við skipulag og utanumhald Írskra vetrardaga og er verkefnið liður í námi hennar á Hólum,“ segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Meðal dagskráatriða á Írskum vetrardögum er örnefnaganga, tónleikar í Akranesvita, upplestur og fræðsla um írskar bókmenntir á Bókasafni Akraness og þá verður hægt að kaupa írskt bakkelsi í Skökkinni.
↧
Írskir vetrardagar - menningardagskrá á Akranesi
↧
Segir fermingarbörnum ekki hafa fækkað
Séra Þorbjörn Hlynur Árnason er prófastur Vesturlands-prófastsdæmis og starfandi sóknarprestur í Borgarprestakalli. Aðspurður um fermingarstörf kirkjunnar undanfarin ár segist hann almennt séð vera ánægður. „Ég er ánægður með áhuga barnanna og mér finnst slæmt að heyra þá klisju að börn séu að fermast upp á gjafir eða veislur. Það er alls ekki tilfellið,“ segir sr. Þorbjörn Hlynur sem hefur yfir þrjátíu ára reynslu sem prestur. Hann segir gefandi fyrir presta að vera innan um þau efnilegu ungmenni sem fermingarbörnin eru. „Það er merkilegt að sjá hvernig hugðarefni þeirra og aðstæður breytast. Fyrstu börnin sem ég fermdi eru komin á miðjan fimmtugsaldur núna og mörg síðustu ár hef ég verið að ferma börn þeirra barna sem ég fermdi á sínum tíma. Auðvitað breytast hugðarefni og aðstæður en börnin eru söm við sig, alltaf jafn einlæg og áhugasöm og full af vilja að taka það alvarlega sem þau eru að gera.“ Hann segir tölvur og samfélagsmiðla hafa meiri áhrif á börn en var. „Eðlilega, því það er ýmislegt til núna sem var ekki til þá. Það hefur þó ekki breytt neinu í grunninn. Þau ganga til fermingarfræðslu og til fermingar af heilum huga,“ segir hann.
Þorbjörn Hlynur segir fermingarbörnum ekki hafa fækkað á undanförnum árum, þrátt fyrir það sem einhverjir halda. „Það er óverulegt. Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem ekki láta ferma sig en borgaraleg ferming hefur til dæmis ekki náð neinni fótfestu að ráði. Fólk hefur sitt val og við gerum engar athugasemdir við það hvort börn fermast eða velja aðrar leiðir. Það er val fólksins eins og annað í lífinu. Við tökum vel á móti þeim börnum sem koma til okkar og reynum að gera hlutina eins vel og hægt er.“
↧
↧
Byggt við brugghús til að geta tekið á móti hópum í bjórsmökkun
Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við Brugghús Steðja í Borgarfirði, en um 150 fermetrar hafa verið byggðir aftan við sjálft brugghúsið. Þó nóg sé að gera í bjórframleiðslu segir Dagbjartur Arilíusson í Steðja að ekki sé verið að stækka brugghúsið. „Þetta er einfaldlega gert til að við getum betur tekið á móti stórum hópum sem sækjast í auknum mæli eftir því að koma hingað í bjórsmökkun og kynningar,“ segir hann í samtali við Skessuhorn. Hann segir slíkar ferðir verða stöðugt vinsælli, ekki síst meðal Íslendinga. „Það eru helst vinnustaðir sem fjölmenna hingað í skemmtiferðir en einnig er nokkuð um að ferðamenn komi hingað í hópum,“ segir Dagbjartur. Eftirspurnin eftir slíkum ferðum er orðin slík að hann hafi séð sig knúinn til að stækka. „Þó við auglýsum það ekki þá höfum við alltaf tekið á móti hópum sé þess óskað. Nú er töluvert bókað í slíkar ferðir í sumar og stórir hópar væntanlegir,“ segir hann.
„Hingað til höfum við tekið á móti hópum í brugghúsinu sjálfu. Það fer mjög vel um 25-30 manns þar í einu en þegar hóparnir eru farnir að telja nær 50 manns þá fer að verða þröngt á þingi, ég tala nú ekki um þegar þeir eru stærri,“ segir Dagbjartur og bætir því við að hann hafi oft þurft að skipta fjölmennum hópum í tvennt. Með tilkomu betri aðstöðu eigi slíkt að heyra sögunni til. „Þegar þetta verður komið í gagnið geri ég ráð fyrir að hér verði leikandi hægt að taka á móti hundrað manna hópum þannig að vel fari um alla,“ segir hann. Rýmið mun einnig nýtast sem lager að einhverju leyti og segir Dagbjartur að framkvæmdum ljúki á næstu vikum.
Nánar í Skessuhorni vikunnar.
↧
Jóhannes Finnur tekur við formennsku í FEBAN
Aðalfundur Félags eldri borgara á Akranesi og nágrenni (FEBAN) var haldinn í síðustu viku. Þar bar meðal annars til tíðinda að Ingimar Magnússon lét af formennsku í félaginu og við tók Jóhannes Finnur Halldórsson hagfræðingur, en hann hafði undanfarið ár setið í stjórn sem varaformaður. Nýr í stjórn kom Júlíus Þórarinsson. Áfram eru í aðalstjórn félagsins þau Guðlaug Bergþórsdóttir, Jónas A Kjerúlf, Svavar Sigurðsson, Sesselja Einarsdóttir og Þorvaldur Valgarðsson. Stjórn FEBAN hefur fundað einu sinni í mánuði og hefur varastjórn tekið virkan þátt í þeim. Í henni sitja þau Ásgerður Ása Magnúsdóttir, Hanna Rúna Jóhannsdóttir og Hilmar Björnsson.
Rætt er við nýkjörinn formann í Skessuhorni vikunnar.
↧
Kristín er rósahafi vikunnar í Vetrarkærleiknum
Kristín Thorlacius fékk rós vikunnar í Vetrar-Kærleiknum sem Blómasetrið – Kaffi kyrrð stendur fyrir. Rósina fékk hún fyrir, eins og segir orðrétt í tilnefningunni: „Umhyggjusemi, jákvæðni og lífsgleði, fyrir að leggja sitt að mörkum að menntun og fræðslu í bæjarfélaginu. Hún er traust vinkona, fróð og vel gerð. Hún er öflug kona.“
↧
↧
Lilja Rafney svarar ávirðingum utanríkisráðherra
Lilja Rafneyjar Magnúsardóttir alþingismaður VG sendir nú frá sér yfirlýsingu sem hún óskar birta í fjölmiðlum:
„Vegna orða Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í morgunútvarpi RÚV um að undirrituð hefði ekki gert grein fyrir hagsmunum sínum um kvótasölu sína og fjölskyldunnar þegar hún barðist fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu á síðasta kjörtímabili vil ég að eftirfarandi komi fram: Lilja Rafney og eiginmaður henna hafa aldrei átt eða selt fiskveiðikvóta. Fósturfaðir hennar var hættur smábátaútgerð sökum aldurs þegar hún tók sæti á Alþingi 2009 og faðir hennar, sem var sjómaður og átti smábát, lést árið 1997. Engir beinir eða óbeinir einkahagsmunir lágu því undir þegar Lilja Rafney barðist fyrir breytingum á kvótakerfinu, aðeins hagsmunir almennings. Með orðum sínum um annað leitast utanríkisráðherra við að afvegaleiða umræðuna um hagsmuni forsætisráðherra og eiginkonu hans og heldur fram helberum ósannindum um undirritaðan þingmann í því skyni að gjaldfella málflutning hans á þingi og í þjóðfélagsumræðunni og drepa á dreif gagnrýni á forsætisráðherra.“
↧
Hítardalsvegur ófær fólksbílum og óljóst um viðhald
Hítardalsvegur (539) á Mýrum er í hópi tengivega í dreifbýli sem hafa verið olnbogabarn í vegakerfinu um áratugaskeið. Mikið hefur skort á eðlilegt viðhald vegarins miðað við íbúafjölda og umferð sem um veginn fer. Vegurinn er aldrei góður en á vorin er hann vart boðlegur og alls ekki fólksbílafær. Starfsmaður Vegagerðarinnar sem Skessuhorn ræddi við segir ástæðuna að verulega skorti peninga í viðhald vega almennt og eigi það við um allt land. Á kaflanum frá Staðarhrauni niður á malbikið á Snæfellsnesvegi eru um sex kílómetrar. Á leiðinni eru nú þrjár skvompur eftir kröftugar leysingar síðustu daga. Á meðfylgjandi myndum sem Jón Guðlaugur Guðbrandsson á Staðarhrauni tók fyrr í vikunni sést að vegurinn er ekki fólksbílafær. „Til viðbótar þessum skvompum eru svo allar holurnar sem fara bráðum að vera friðaðar sökum hás aldurs,“ sagði Jón Guðlaugur. Frá Staðarhrauni og upp að Hítardal er önnur eins vegalengd en sá vegur er að hluta til byggður á hrauni og því ekki alveg eins slæmur.
↧
Gunnlaugur Júlíusson ráðinn sveitarstjóri í Borgarbyggð
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í morgun var rætt um umsóknir um starf sveitarstjóra. Alls bárust 26 umsóknir um starfið. Hagvangur var síðan fenginn til að greina umsóknir og stýra væntanlegu ráðningarferli. Niðurstaðan var sú að byggðarráð samþykkti á forsendum mats á umsóknum að ganga til samninga við Gunnlaug A Júlíusson hagfræðing um að taka við starfi sveitarstjóra Borgarbyggðar. Ráðning hans verður síðan formlega staðfest á aukafundi í sveitarstjórn á morgun, föstudag. Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns var einhugur í byggðarráði um ráðinguna.
Gunnlaugur Júlíusson er hokinn af reynslu af störfum á vettvangi sveitarstjórnarmála. Hann er nú sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sem slíkur ber hann ábyrgð á og stýrir verkefnum sem lúta að upplýsingaöflun, úrvinnslu, miðlun og útgáfu á rekstrar-, efnahags- og hagrænum upplýsingum úr starfsemi sveitarfélaganna. Auk þess hefur hann sinnt margvíslegri hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin og tekið þátt í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á sviði efnahagsmála og reikningsskila sveitarfélaga.
↧
Snæfell gefur ekkert eftir í toppbaráttunni
Snæfell tók á móti Keflavík í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær. Leikurinn fór fjörlega af stað þó stigataflan hafi ekki endilega gefið vísbendingu þar um. Snæfell leiddi fyrstu mínúturnar en Keflvíkingar léku góða vörn og sneru taflinu sér í vil undir lok upphafsfjórðungsins. Snæfellskonur bættu varnarleik sinn í upphafi annars leikhluta, tóku forystuna á nýjan leik en Keflvíkingar voru aldrei langt undan. Góður kafli Snæfells rétt fyrir hálfleik skilaði þeim þó átta stiga forskoti í leikhléi, 39-31.
Mikið jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik og gestirnir héldu í við Snæfellskonur, sem svo oft í vetur hafa stungið lið af í þriðja leikhluta. Í loka fjórðungnum sýndu þær hins vegar mátt sinn og megin. Þær juku forskotið lítið eitt snemma fjórðungsins, héldu Keflvíkingum í skefjum og gerðu svo endanlega út um leikinn með góðum lokaspretti. Iðnaðarsigur hjá Snæfellskonum, 80-59.
Haiden Palmer átti magnaðan leik fyrir Snæfell og var hársbreidd frá þrennunni. Hún skoraði 38 stig, tók 15 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Næst henni kom Berglind Gunnarsdóttir með 13 stig og sjö fráköst en aðrar höfðu minna.
Eftir leik gærdagsins situr Snæfell í öðru sæti deildarinnar með 38 stig eftir 22 leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka. Næst mæta Snæfellskonur Grindvíkingum suður með sjó laugardaginn 19. mars .
↧
↧
Veiðikortið kynnir silungsveiðina í vötnum
Nú styttist í að silungsveiði hefjist í vötnum. Innan vébanda Veiðikortsins eru fjölmörg vötn um allt land. Nú hefur Veiðikortið kynnt hvenær opnað verður til silungsveiða í vor. Af vötnum á Vesturlandi má nefna að Baulárvallavatn og Hraunsfjarðarvatn á Snæfellsnesi eru opnuð þegar ísa leysir á vorin og er veiði í þeim leyfð til 30. september. Eyrarvatn, Þórisstaðavatn og Geitabergsvatn í Svínadal verða opnuð 1. apríl næstkomandi og verða opin til 25. september. Hraunsfjörður á Snæfellsnesi verður opnaður 1. apríl til 30. september. Meðalfellsvatn í Kjós er opið frá 1. apríl til 20. september. Hítarvatn verður opnað til veiða 31. maí og verður út ágúst.
↧
Dansarar af Vesturlandi gera það gott
Íslandsmeistaramótið í tíu dönsum (meistaraflokkur) fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík um liðna helgi og áttu Vestlendingar að sjálfsögðu sína fulltrúa á mótinu. Í meistaraflokki dansaði Borgfirðingurinn Daði Freyr Guðjónsson með Mörtu Carrasco og hrepptu þau annað sætið á Íslandsmótinu. Arnar Þórsson dansaði með Rebekku Rós Ragnarsdóttur og lentu þau í fimmta sæti. Með árangri sínum hafa Daði Freyr og Marta tryggt sér þátttökurétt á heims- og Evrópumeistaramótum og heims- og Evrópubikarmeistaramótum. Þessi pör tóku einnig þátt í DSÍ Open Standard og DSÍ Open Latin um liðna helgi. Þar sigruðu Daði og Marta í standard og höfnuðu í öðru sæti í latin. Arnar og Rebekka höfnuðu í fimmta sæti í standard og því níunda í latin. Þriðji Borgfirðingurinn, Elís Dofri G Gylfason, hafnaði í sjötta sæti í latin ásamt Anítu Rós Kingo Andersen, dansfélaga sínum.
↧
„Skiptir oft meira máli að vera en að gera“
Þráinn Haraldsson prestur á Akranesi hefur mikla reynslu af starfi með börnum og unglingum. Hann hefur haft umsjón með fermingarfræðslunni á Akranesi í vetur ásamt sr. Eðvarð Ingólfssyni og segir alltaf jafn gaman að vinna með krökkunum. Um næstu helgi tekur Þráinn þátt í fyrstu fermingarathöfninni sem hann kemur nærri á Akranesi. Þráinn byrjaði sjálfur snemma í æskulýðsstarfi, fyrst um sinn sem leiðtogi hjá KFUM í Vatnaskógi og í æskulýðsstarfi í Hjallakirkju í Kópavogi. „Æskulýðsstarf snýst að hluta til um það sem maður gerir og hins vegar um það sem maður er. Það skiptir nefnilega oft meira máli að vera en að gera. Í þessu starfi er maður meðal annars að bjóða börnum og unglingum að eiga samtöl við fullorðið fólk og maður er að byggja upp ákveðna sýn. Þá skiptir máli hver maður er fyrir unglingunum, bæði þeim sem sækja æskulýðsstarf og þeim sem eru að fara að fermast,“ segir Þráinn í samtali við Skessuhorn. Hann segir fermingarfræðsluna að vissu leyti nátengda æskulýðsstarfinu. „Hún snýr líka að því að búa til upplifun og minningar. Að krakkarnir eigi jákvæða upplifun af vetrinum. Og þegar maður er að vinna með unglingum þá er maður að hluta til að koma þeim áfram til þroska. Æskulýðsstarfið helst í hendur við það,“ segir hann.
Sjá viðtal við Þráinn í Skessuhorni vikunnar.
↧
Taka að sér símsvörun og upplýsingagjöf fyrir FEBAN
Í gær var undirritaður samstarfssamningur milli Ritari.is og Félags eldri borgara á Akranesi og nágrenni um símsvörun fyrir FEBAN. Á samningstímanum tekur Ritari.is að sér að svara í síma félagsins á tímabilinu frá klukkan 9 til 17 alla virka daga. Þar geta innhringjendur aflað upplýsinga um dagskráratriði hjá félaginu, sent inn erindi og skráð sig á viðburði hjá félaginu. Símanúmerið er 431-2000. Samningurinn tekur gildi 1. apríl næstkomandi.
↧
↧
Pallaball í Borgarnesi í kvöld en krakkaball áður
Körfuknattleiksdeild Skallagríms stendur í kvöld fyrir fjáröflunarballi í Borgarnesi, Pallaballi, eins og þau gerast best. Páll Óskar mun spila í Hjálmakletti „nonstop“ frá klukkan 23 til 03. „Þetta verður svakalegt ball með ennþá stærra hljóðkerfi en í fyrra, nú með dönsurum, confettí sprengjum og öllu tilheyrandi. Það verður mikið lagt í showið eins og Palla er einum lagið,“ segir Arnar Víðir Jónsson formaður körfuknattleiksdeildarinnar í samtali við Skessuhorn. Páll Óskar segist ætla að spila "nonstop" með því að skiptast á að syngja og þeyta skífum. Hann lofar dúndurstuði og kveðst fullviss um að það verði uppselt. Nú þegar sé mikið selt í forsölu en afgangurinn af miðunum fari í sölu við innganginn og þar gildi; fyrsti koma, fyrstir fá. Arnar segir þennan viðburð í kvöld eina af stærstu fjáröflunum fyrir Körfuknattleiksdeild Skallagríms.
Veislunni verður samt startað með barnaballi frá klukkan 18:00 til 18:30 í Hjálmakletti. Þá verður boðið upp á myndatöku með meistaranum Palla á eftir. „Þetta er í boði Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og Páls Óskars sjálfs. Við hvetjum alla foreldra til að mæta með börnin sín og dilla sér með þeim og hita sig upp fyrir svakalegt ball seinna í kvöld,“ segir Arnar Víðir. Páll Óskar hvetur sömuleiðis alla sem vettlingi geta valdið að mæta með krakkana á barnaskemmtunina. "Það er ókeypis inn, allir velkomnir og ekkert aldurstakmark. Fyllum húsið og skemmtum okkur með krökkunum," sagði Páll Óskar í samtali við Skessuhorn.
Sjá nánar síðu fyrir viðburðinn:
https://www.facebook.com/events/534948603342798/
↧
Höfuðborgarsvæðið markaðssett sem ein heild
Vörumerkið „Reykjavík Loves“ verður notað til að markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild til erlendra ferðamanna samkvæmt samstarfssamningi sem sveitarstjórar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa undirritað. Samningurinn felur í sér samstarf sveitarfélaganna á vettvangi markaðsmála, viðburða og upplýsingamála í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Markmið samstarfsins er að vinna að því að ferðamenn dreifist meira um höfuðborgarsvæðið, verji þar meiri tíma og nýti betur afþreyingu og þjónustu á svæðinu í heild. Í samningnum kemur m.a. fram að vörumerkið Reykjavík sé þekkt og með samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir sameiginlegu vörumerki Reykjavík Loves megi efla svæðið enn frekar sem eftirsóknarverðan áfangastað fyrir erlenda ferðamenn.
↧
Viðbót við dansfrétt
Hér á síðunni fyrir helgi var frétt um bikarmeistaramót Íslands í dansi og greint frá góðum árangri barna og ungmenna bæði frá Akranesi og Borgarfirði. Þrátt fyrir ítarlega frétt af mótinu láðist að geta um frábæran árangur 14 ára ungmenna úr Borgarnesi. Í grunnsporakeppninni var keppt um bikarmeistaratitil hjá þeim sem eru í efsta styrkleikaflokki í grunnsporum og dansa fjóra dansa. Þau Anton Elí Einarsson og Arna Jara Jökulsdóttir urðu bikarmeistarar í Latín dönsum í flokki „unglingar II“. Í fréttinni var sagt að annað danspar, Helgi Reyr og Heiður Dís frá Akranesi, hafi orðið í þriðja sæti í þeim flokki, en þau urðu í öðru sæti á eftir Anton Elí og Örnu Jöru. Þetta leiðréttist hér með og beðist velvirðingar á að nafn þeirra féll niður. Jafnframt skal áréttað að þegar upplýsingum um fjölmenn mót sem þetta er komið til ritstjórnar, er æskilegt að alls heimafólks sé getið í ábendingu, til að svona óhöpp hendi síður.
↧
Leikrýni - Óþarfa offarsi í Logalandi
Ungmennafélag Reykdæla í Borgarfirði sýnir nú leikritið Óþarfa offarsa eftir bandaríska leikarann og leikskáldið Paul Slade Smith í þýðingu Harðar Sigurðsson og leikstjórn Ármanns Guðmundssonar.
Eins og nafnið bendir til þá er þetta farsi og í försum eru margar dyr. Í þessu tilfelli eru þær sjö þar af einar með tveimur hurðum, sem býður upp á margar leiðir til að rugla, misskilningur verður á misskilning ofan. Sviðið er tvö samliggjandi hótelherbergi. Í öðru hafa tveir lögreglumenn sett upp gildru fyrir spilltan stjórnmálamann, borgarstjórann Meekly, sem Jón Pétursson leikur. Eins og gefur að skilja fer ekki allt eins og gert var ráð fyrir í byrjun.
↧
↧
Leikrýni - Blessað barnalán – Frábær skemmtun
Ég hef ákaflega gaman af því að sjá leiksýningar hjá áhugamanna leikfélögum og hef farið á sýningar hjá Leikdeild Ungmennafélags Skallagríms síðastliðin ár og haft mjög gaman af. Á þessu ári fagnar Leikdeildin 100 ára afmæli sínu og er víst ýmislegt á döfinni til að halda upp á áfangann. Fimmtudaginn 10. mars síðastliðinn var gamanleikurinn Blessað barnalán frumsýndur í félagsheimilnu Lyngbrekku og nú þegar eru þrjár sýningar búnar. Verkið er eftir Kjartan Ragnarsson og leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson.
Í stuttu máli þá fjallar leikritið um mæðgur sem búa saman í þorpi austur á fjörðum. Móðirin á sér þá ósk heitasta að fá yngri systkinin til að koma heim á æskustöðvarnar og eyða með þeim sumarfríinu svona einu sinni enn áður en hún deyr. Ekki virðist það ætla að ganga alveg að hennar óskum og tekur elsta dóttirin því til sinna ráða til að fá systkinin heim. Ráðabrugg systurinnar fer þó að sjálfsögðu úr böndunum og upphefst mikill feluleikur og misskilningur þar sem ekkert er greinilega of heilagt til að ná settu mark. Úr þessu verður hin mesta flækja og taugastríð allra sem hlut eiga að máli. Inn í ráðabruggið fléttast síðan hinar ýmsu persónur í þorpinu hvort sem þeim líkar betur eða verr.
↧
Leikrýni - Eitthvað sem togar… og tefur
Egill Ólafsson skemmtir gestum á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi um þessar mundir. Ég var þar í hópi góðra vina sem naut þess að hlusta á þennan fjölhæfa tónlistarmann og leikara lýsa þroskabrautinni frá því hann stóð þriggja ára gamall í gúmmístígvélunum einum fata í fjörunni á Akranesi staðráðinn í að fara á sjóinn með afa, til þess að vera fullbúinn í úthafssiglingu með konu sinni á eigin skútu rúmlega sextugur.
↧
Glíman við Hallgrím - fyrirlestur í Snorrastofu
Passíusálmarnir eru viðfangsefnið í fyrirlestri Marðar Árnasonar í fyrirlestraröð Snorrastofu, Fyrirlestrar í héraði, þriðjudaginn í dymbilviku, 22. mars. Mörður kynnir útgáfu sína á Passíusálmunum, sem er 92. útgáfa/prentun sálmanna frá því þeir komu fyrst út á Hólum árið 1666, fyrir hálfri fjórðu öld, og gerir grein fyrir vinnubrögðum sínum og samstarfsmanna sinna við verkið. Hann drepur einnig á hugmyndalega stöðu skáldverksins og setur fram hugmyndir og tilgátur um tilbrigði við lúterskan rétttrúnað með hliðsjón af nokkrum stöðum í sálmunum. Á eftir verður spjallað um sálmana, skáldið og aðrar persónur í verkinu, höfundinn og samtíma hans.
↧