Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá lét Jóhannes Björgvinsson lögregluþjónn af störfum um áramótin eftir 36 ár í lögreglunni. Þar af þjónaði hann sem lögregluþjónn í Dölum í ellefu ár. Í síðastliðinni viku færði Jóhannes Byggðasafni Dalamanna veglega gjöf en þangað lét hann til varðveislu hátíðarbúning sinn úr lögreglunni ásamt lögreglufrakka frá árinu 1979. Frakkann fékk hann þegar hann tók til starfa sem lögreglumaður en um það bil ári síðar var nýr lögreglubúningur tekinn í notkun og frakkinn settur til hliðar.
↧
Byggðasafni Dalamanna áskotnast lögreglubúningur
↧
Hafa þátttökurétt á bikarmóti Íslands í klifri
Íslandsmeistara-mótaröðinni í klifri lauk á sunnudaginn síðastliðinn í Klifurhúsinu í Reykjavík. ÍA átti hátt í tuttugu keppendur á mótinu á aldrinum 6 til 16 ára og hafa þeir aldrei verið fleiri. Í keppni um Íslandsmeistaratitil í unglingaflokki, 13-15 ára, hafnaði Brimrún Eir Óðinsdóttir í fjórða sæti og Ástrós Elísabet Ástþórsdóttir í því þriðja og þar með hafa þær unnið sér inn þátttökurétt á bikarmóti Íslands sem fram fer í apríl. Íslandsmeistari síðustu ára, Katarína Eik Sigurjónsdóttir frá Klifurfélagi Reykjavíkur, varði Íslandsmeistartitil sinn þriðja árið í röð.
↧
↧
Skallagrímur berst enn um heimaleikjarétt
Síðastliðinn föstudag tók Skallagrímur á móti Hamri í 1. deild karla í körfuknattleik. Fyrir leikinn höfðu Skallagrímsmenn þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en kepptu að heimaleikjarétti í keppninni. Hamarsmenn höfðu hins vegar misst af lestinni. Skallagrímsmenn byrjuðu af krafti en misstu flugið um miðjan fyrsta leikhlutann. Betri stígandi var í leik gestanna sem nýttu tækifærið og náðu afgerandi forskoti og leiddu í leikhléi, 40-56.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Gestirnir leiddu og Skallagrímsmenn minnkuðu muninn lítillega undir lok þriðja leikhluta. Þeir héldu heimamönnum frá sér allt til loka, Skallagrímur komst aldrei nær en sem nam sjö stigum seint í leiknum og þurfti að lokum að sætta sig við tíu stiga tap, 90-100.
J.R. Cadot var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 26 stig, tólf fráköst og sjö stoðsendingar. Næstur kom Hamid Dicko með 15 stig og þá Sigtryggur Arnar Björnsson með 14 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar. Davíð Guðmundsson skoraði 13 stig en aðrir höfðu minna.
Í lokaleik deildarinnar mætir Skallagrímur Fjölni á útivelli föstudaginn 18. mars. Þar geta Borgnesingar tryggt sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
↧
Veðrið í aðalhlutverki á loðnumiðunum
Tólf uppsjávarveiðiskip bíða þess nú í vari við norðanvert Snæfellsnes að veðrið gangi niður þannig að hægt verði að leita að loðnu í veiðanlegu magni á Breiðafirði. Skipin eru út af Ólafsvík og að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi AK, ætti að viðra vel til veiða seint í kvöld og nótt. Í samtali við tíðindamann HB Granda vefsins segir Albert að loðnan sé til staðar í firðinum og að þeir hafi náð að kasta tvisvar áður en vitlausa veðrið skall á í gær. „Við vorum með um 550 tonn af loðnu í öðru kastinu en misstum hitt þar sem nótapokinn rifnaði,“ segir Albert. Að hans sögn er veðrið í algjöru aðalhlutverki á loðnumiðunum um þessar mundir. Hver lægðin af fætur annarri hafi gengið yfir og ekki sé nóg með að veðrið sé slæmt heldur hafi sjólag verið með versta móti þann tíma sem vindur hafi gengið niður. Veðurhorfur næstu dagana eru ekkert sérstakar fyrir Breiðafjörð en Albert bindur vonir við að það gefi til veiða inn á milli.
↧
Kristín er rósahafi vikunnar í Vetrarkærleiknum
Kristín Thorlacius fékk rós vikunnar í Vetrar-Kærleiknum sem Blómasetrið – Kaffi kyrrð stendur fyrir. Rósina fékk hún fyrir, eins og segir orðrétt í tilnefningunni: „Umhyggjusemi, jákvæðni og lífsgleði, fyrir að leggja sitt að mörkum að menntun og fræðslu í bæjarfélaginu. Hún er traust vinkona, fróð og vel gerð. Hún er öflug kona.“
↧
↧
Undankeppni Nótunnar á Vesturlandi og Vestfjörðum
Laugardagurinn 12. mars var mikill hátíðisdagur í Stykkishólmskirkju en þá voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna, fyrir Vestfirði og Vesturland. Fjöldi nemenda af öllum stigum tónlistarnámsins kom fram og voru atriðin afar fjölbreytileg, sem gerði tónleikana einstaklega skemmtilega og áhugaverða. Viðurkenningar voru veittar fyrir framúrskarandi atriði og þrjú atriði valin til þátttöku á lokatónleikum Nótunnar sem haldnir verða í Hörpu sunnudaginn 10. apríl næstkomandi. Sigurvegararnir voru: Oliver Rähni frá Tónlistarskóla Bolungarvíkur, en hann lék frumsaminn konsert fyrir einleikspíanó, Sigurður Guðmundsson frá Tónlistarskóla Stykkishólms, en hann lék Söng Sólveigar eftir E. Grieg á alt-saxófón. Meðleikari á píanó var Hólmgeir Þórsteinsson. Að lokum þau Pétur Ernir Svavarsson og Kristín Harpa Jónsdóttir frá Tónlistarskóla Ísafjarðar sem léku eigin útsetningu á Harry Potter svítu eftir John Williams fyrir tvö píanó.
↧
Vegleg hátíðarhöld til að minnast þess að tíu ár eru frá Mýraeldum
Búnaðarfélag Mýramanna mun halda Mýraeldahátíð í reiðhöllinni Faxaborg í Borgarnesi og síðan um kvöldið í Lyngbrekku laugardaginn 9. apríl næstkomandi. Hátíðin er haldin annað hvert ár til að minnast sinubrunans mikla sem varð í Hraunhreppi í Mýrasýslu fyrir tíu árum, dagana 30. mars til 2. apríl árið 2006. Eldarnir voru jafnframt stærstu einstöku gróðureldar sem orðið hafa í manna minnum hér á landi. Mýraeldahátíðin verður að þessu sinni haldin á tveimur stöðum; í Faxaborg og um kvöldið í Lyngbrekku. Ástæða er til að hvetja fólk til að taka daginn frá og skemmta sér með Mýramönnum, sem ekki er leiðinlegt.
Nánar í Skessuhorni sem kemur út á morgun.
↧
Sýningin Akrafjall úr ýmsum áttum
Á Bókasafni Akraness hefur verið sett upp sýning á myndum af Akrafjalli. Myndirnar koma úr ýmsum áttum og eru unnar á mismunandi vegu. Þær eru í eigu Héraðsskjala- og Ljósmyndasafnsins, Bókasafnsins, Listasafns Akraneskaupstaðar og í einkaeigu. „Sumar myndanna voru keyptar í Búkollu – nytjamarkaði, en þar leynast ýmsir dýrgripir. Enn eru laus pláss á Veggnum og ef einhverjir eiga skemmtilega útfærslu af Akrafjallinu og eru tilbúnir að lána á sýninguna væri það gaman,“ segir í tilkynningu frá starfsfólki bókasafnsins. Þá segir að á snjallsjónvarpinu er videomyndin „in the foothills Akrafjall / Iceland,“ sýnd en hafa tók Michał Mogiła.
Bókasafnið er opið alla virka daga frá klukkan 12.00 – 18.00 og á laugardögum frá kl. 11.00 – 14.00 og eru allir velkomnir til að skoða sýninguna.
↧
Héldu Íslandsmót í badminton
Íslandsmót unglinga í badminton var haldið á Akranesi helgina 11.-13. mars og voru þátttakendur 168 talsins frá tíu félögum; Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, KR, Samherjum, TBR, TBS, UMFS og Umf. Þór. Spilaðir voru 337 leikir um helgina. ÍA og UMFS áttu 18 keppendur á mótinu. Mótið gekk vel fyrir sig en veðrið var aðeins að stríða þátttakendum á leiðinni á mótsstað. En það urðu ekki mörg forföll vegna veðurs. Allir þátttakendur í mótinu fengu bol, buff og tattú að gjöf frá Badmintonfélagi Akraness og ÍA í tilefni afmælis þeirra. Badmintonfélag Akraness fagnar 40 ára afmæli í nóvember og því var tilvalið að halda veglegt Íslandsmót unglinga á Akranesi þetta árið.
Á laugardaginn fór fram keppni í U-11 flokknum, þar var keppt í einliðaleik og tvíliðaleik. Þar eignaðist ÍA fyrsta Íslandsmeistaratitilinn 2016 þegar Máni Berg Ellertsson sigraði í tvíliðaleik með Höllu Stellu Sveinbjörnsdóttur. Á sunnudaginn fóru fram úrslit og í lok dags voru krýndir Íslandsmeistarar 2016. Mesta afrekið hjá ÍA vann Brynjar Már Ellertsson, hann sigraði þrefalt, í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Alls hlutu félagsmenn ÍA og UMFS 9 Íslandsmeistaratitla.
↧
↧
Kristjáni héldu engin bönd
Síðustu tvö mánudagskvöld hafa félagar í Briddsfélagi Borgarfjarðar spilað einmenning. Þátttaka var með ágætum og mættu 24 til keppni hvort kvöld. Fyrra kvöldið var það reynsluboltinn Sveinn á Vatnshömrum sem fór með sigur af hólmi, rakaði saman 148 stigum sem gera 61,7% skor. Rúnar Ragnarsson fylgdi honum fast á eftir með 147 stig og Kristján í Bakkakoti endaði með 140. Seinna kvöldið héldu Kristjáni svo engin bönd, hann lauk leik með 156 stig eða 65%, Sveinbjörn nautahirðir kom honum næstur með 150 stig og þriðji varð Ólafur á Brúarhrauni með 144 stig. Eins og glöggir lesendur hafa líklega áttað sig á þá var það Kristján í Bakkakoti sem vann samanlagða keppni, með 296 stigum og fór heim með bikarinn. Næstur honum varð Sveinn á Vatnshömrum mað 272 stig og þriðji Sveinbjörn nautahirðir með 270 stig.
Næsta mánudag verður spilaður páskatvímenningur með forgefnum spilum og ef þátttaka leyfir verður spilaður Monrad.
↧
Sænskur höfundur í útgáfuhófi á Akranesi
Emelie Schepp er sænskur höfundur sem vakti athygli í heimalandi sínu fyrir fyrstu bók sína, Märkta för livet, og ekki síst vegna þess að hún gaf bókina út sjálf og uppskar titilinn „sjálfsútgefandi Svíþjóðar nr. 1.“ Seldist bókin í 40 þúsund eintökum út úr kjallaranum hjá henni. Nú hefur útgáfurétturinn verið seldur til 27 landa og kemur bókin „Merkt“ út hjá MTH útgáfu á Akranesi í þýðingu Kristjáns Kristjánssonar. Höfundur bókarinnar, Emelie Schepp verður á landinu næstu daga til að kynna bókina sem kemur formlega út á íslensku fimmtudaginn 17. mars. Útgáfuhóf verður haldið í Eymundsson á Akranesi kl. 17.00 þann 17. mars.
Um bókina segir á kápu: „Yfirmaður á Útlendingastofnuninni í Norrköping finnst myrtur á heimili sínu og Jönu Berzelius saksóknara er falin rannsókn málsins. Henrik Levin og Mia Bolander hjá rannsóknarlögreglunni eru henni til aðstoðar og fljótlega kemur í ljós að annað morð hefur verið framið - morð sem tengir Jönu við ógnvænlegt leyndarmál úr fortíðinni.“
↧
Lenti á vegklæðningu og hafnaði utan vegar
Skemmdir urðu á vegklæðningu í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi í rokinu að kvöldi síðasta sunnudags. Klæðningin fauk bókstaflega af og rúllaðist upp í hauga á um hundrað metra kafla. Óheppinn ökumaður sem ók inn á svæðið lenti á vegklæðningunni og fór bíllinn í loftköstum út fyrir veg og skemmdist mikið. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, kenndi eymsla í hálsi og baki og fór sjálfur til læknis til skoðunar. Meðfylgjandi mynd tók Lögreglan á Vesturlandi á vettvangi.
↧
Neyðarkerra komin á Akranes
Síðastliðinn laugardag var Rauða krossinum á Akranesi afhent neyðarkerra sem gjöf frá nokkrum aðilum á Akranesi. Neyðarkerra sem þessi inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. RKÍ hefur undanfarið unnið að því að koma slíkum kerrum fyrir víða um land, en yfirleitt á ein kerra að þjóna stóru svæði.
Það var Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem tók að sér það verkefni að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík væri ekki til staðar hér á Akranesi. Hafði Vilhjálmur samband við nokkur öflug fyrirtæki á Akranesi - Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað - og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Skemmst er frá því að segja að örskamma stund tók að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Slysavarnadeildin Líf hafði samband þegar hún frétti af söfnuninni og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið.
↧
↧
Fermingaarblað fylgir Skessuhorni í dag
Um næstu helgi verða fyrstu almennu fermingarathafnirnar á Vesturlandi á þessu ári. Byrjað verður í Reykhólakirkju næstkomandi laugardag. Daginn eftir verður fermt á Akranesi, í Borgarneskirkju og í Snókdalskirkju í Dölum. Tæplega tvöhundruð ungmenni fermast í landshlutanum að þessu sinni, en síðustu skráðu fermingardagar verða í júní. Með Skessuhorni í dag fylgir sérblað þar sem þessara tímamóta í lífi unga fólksins er minnst. Rætt er við fermingarbörn fyrr og nú um stóra daginn. Einnig er rætt við presta og spjallað við stúlku sem valdi að fara þá leið að taka siðmálum að heiðnum sið í fyrra. Þá er listi yfir fermingarbörn í landshlutanum, rætt um kransakökur, óhefðbundnar fermingargjafir og borgaralega fermingu. Auk venjubundinnar dreifingar er blaðið sent til fermingarbarnanna sjálfra með kveðju frá Skessuhorni.
↧
Brúa bilið milli skólastiga
Síðastliðinn föstudag var haldinn sameiginlegur íþróttadagur í Akraneshöll. Þar hittust elstu börn í leikskólum og 1. bekkingar í grunnskólum á Akranesi og spreyttu sig á ýmsum æfingum. Á annað hundrað börn tóku þátt í íþróttadeginum í ár og skemmtu sér konunglega. Starfsfólk skólanna hafði útbúið fjölbreyttar stöðvar um alla Akraneshöll og var börnunum skipt í blandaða hópa á hverja stöð, þar sem þau fengu að spreyta sig ýmsum boltaæfingum, stultum, jóga, hlaupum og fleiru. Um er að ræða árlegan viðburð sem er liður í samstarfi skólastiganna, Brúum bilið sem hefur verið fastur liður í skólastarfi á Akranesi frá 1996. Á Akranesi eru starfandi fjórir leikskólar og tveir grunnskólar sem unnið hafa saman að því á þessum árum að auðvelda börnum að flytjast milli skólastiga og skapa samfellu í námi þeirra.
Að sögn Ástu Egilsdóttur kennara við Grundaskóla hefur samstarfið reynst mjög vel í alla staði. Hún segir skólabyrjunina reynast börnunum almennt mun auðveldari eftir að samstarfið hófst og að aðlögun að grunnskólanum gangi betur fyrir sig. „Við höfum sinnt faglegu samstarfi skólastiganna í gegnum árin en sá þáttur í samstarfinu þarf að vera reglubundinn, meðal annars vegna mannabreytinga. Nú er til að mynda nýfarinn af stað samráðshópur um læsi sem hefur meðal annars það markmið að leggja fram tillögur um hvernig tryggja megi samfellu í læsi milli skólastiganna,“ segir Ásta.
Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.
↧
Framleiddu úrvalsmjólk allt síðasta ár
Föstudaginn 11. mars var haldinn sameiginlegur deildarfundur þriggja deilda Auðhumlu svf. í Snæfellsness- og Mýrasýsludeild, Borgarfjarðardeild og Hvalfjarðardeild. Fundurinn var haldinn að Hótel Hamri í Borgarnesi. Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu, Garðar Eiríksson framkvæmdastjóri Auðhumlu, Ari Edwald forstjóri MS og Björn Baldursson mjólkurbússtjóri á Selfossi fóru yfir rekstur Auðhumlu og MS á síðalstliðnu ári.
Fram kom að aldrei hefur verið vigtuð inn jafnmikil mjólk á landsvísu og á síðasta ári, eða 146 milljónir lítra. Framleiðsla mjólkur var langt umfram það sem spáð hafði verið en salan gekk engu að síður mjög vel. Birgðastaða var í upphafi liðins árs í lágmarki en er komin í viðunandi horf. Miklar umræður urðu á fundiunum um málefni mjólkuriðnaðarins og kynnt voru drög að samþykktarbreytingum Auðhumlu sem verða lagðar fyrir aðalfund félagsins sem fram fer á Akureyri 15. apríl næstkomandi.
Framleiðendur úrvalsmjólkur:
Undanfarin ár hefur verið venja að mjólkurbússtjóri veiti þeim innleggjendum viðurkenningar sem framleiða úrvalsmjólk allt árið. Í ár var eftirfarandi búum veittar viðurkenningar:
Úr Hvalfjarðardeild: Bakki.
Úr Borgarfjarðardeild: Hægindi, Mófellsstaðir og Skálpastaðir.
Úr Snæfellsness- og Mýrasýsludeild: Jörfi, Stakkhamar, Furubrekka og Nýja-Búð.
↧
Skessuhorn degi fyrr í næstu viku
Þar sem Dymbilvikan fer í hönd þarf venju samkvæmt að flýta útgáfu Skessuhorns í næstu viku um einn dag til að blaðið berist öllum fyrir páskahátíðina. Blaðið verður því prentað á mánudagskvöldi og því dreift á þriðjudegi og miðvikudegi. Efni og auglýsingar til birtingar í síðasta blaði fyrir páska þurfa að berast í síðasta lagi fyrir hádegi mánudaginn 21. mars en kostur ef hægt væri að senda inn fyrr.
Efni sendist á: skessuhorn@skessuhorn.is en auglýsingapantanir á lisbet@skessuhorn.is Minnt er á símann 433-5500.
↧
↧
"Grátlegt að missa góðan afla vegna rifinnar nótar"
Skipverjar á Víkingi AK komu með um þúsund tonn af loðnu til vinnslu á Akranesi í gærkvöldi. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var þetta mjög góður afli ekki síst vegna þess að hann samanstóð að 85% af hrognafullri kvenloðnu. Albert sagði að það hefði engu að síður skyggt á ánægjuna í veiðiferðinni að eftir að þessi þúsund tonn voru komin um borð í skipið hafi nótin rifnað og þeir misst af vænum skammti sem kominn var upp að skipshlið. „Maður var alveg ótrúlega svekktur við þetta og nokkra stund að jafna sig. Það stefndi í að við hefðum fyllt skipið, allt upp í 2800 tonn í þessum túr af úrvals hráefni. Ótrúlega svekkjandi þegar veiðarfærin gefa sig svona,“ sagði Albert. Nú er verið að ljúka löndun úr Víkingi á Akranesi og verður þá siglt til Reykjavíkur og ný nót tekin um borð. „Eftir það verður stímið tekið beint á Breiðafjörðinn aftur. Kannski verður það síðasta veiðiferðin okkar á þessari stuttu loðnuvertíð. Kvótinn er að fyllast,“ sagði Albert.
Systurskip Víkings, Venus NS, sigldi með loðnuafla úr Breiðafirði austur til Vopnafjarðar.
↧
Jákvæð rekstrarafkoma Dalabyggðar á síðasta ári
Ársreikningur Dalabyggðar var lagður fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær, þriðjudaginn 15. mars. Þar kemur fram að rekstrartekjur sveitarfélagsins á síðasta ári námu 755,2 milljónum króna fyrir A og B hluta en rekstrargjöld 691 milljón. Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða var jákvæð um 35,1 milljónir en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 15,1 milljónum. Rekstrarniðurstaða Dalabyggðar fyrir árið 2015 er því jákvæð um sem nemur 20,8 milljónum króna. Í A hluta voru rekstrartekjur 625,6 milljónir., rekstrargjöld 558,5 og fjármagnsgjöld 2,8 milljónir. Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um sem nemur 44,3 milljónum króna, að teknu tilliti til fjármagnsgjalda.
Fastafjármunir sveitarfélagsins voru í árslok 866,7 milljónir, veltufjármunir 171,9 og eignir alls rúmur milljarður króna. Langtímaskuldir voru 290,7 milljónir, skammtímaskuldir 126,7 milljónir, lífeyrisskuldbinding 83,6 og heildarskuldir því alls um 501,0 milljónir króna.
↧
Grímsá hristir af sér klakaböndin
Talsverður framburður stórgerðra jaka fer nú niður Grímsá í Borgarfirði, en áin líkt og aðrar borgfirskar ár, er nú í leysingunum að hreinsa af sér ísinn eftir veturinn. Meðfylgjandi mynd til vinstri tók Sveinbjörn Eyjólfsson formaður Veiðifélags Grímsár og Tunguár í hádeginu í dag, þegar hann vitjaði um hross sín og veiðilendurnar í leiðinni. Til hægri er svo mynd tekin á sama stað af brúnni neðan við Fossatún snemmsumars, eða um svipað leiti og laxveiðimenn renna fyrir fyrstu laxana.
↧